Ástmar og Grétar keppa á HM Unglinga
Ísfirðingarnir Ástmar Helgi Kristinsson og Grétar Smári Samúelsson keppa nú fyrir Íslands hönd á Heimsmeistaramóti unglinga í Planica í Slóveníu dagana 5. til 11. febrúar. Strákarnir hófu keppni í dag þar sem keppt var í sprettgöngu með frjálsri aðferð 1,2km. Um 120 keppendur tóku þátt en 30 bestu kepptu til úrslita. Ástmar sem átti rásnúmer 65 hlekktist á í brautinni og datt og endaði í 103 sæti. Grétar með rásnúmer 78 átti virkilega góða göngu og endaði í 76. sæti. En þess má geta að Ástmar er fæddur 2005 og Grétar 2006 en keppt er í einum aldursflokki í sprettgöngu og elstu keppendur eru fæddir 2004.
Öll úrslit frá mótinu má finna hér.
Strákarnir eiga hvíldardag á morgun þriðjudag og hlaða batteríin fyrir næstu daga. Á miðvikudag er keppt í 20km göngu með frjálsri aðferð og á föstudag er 15km hefðbundin ganga.
Það verður spennandi að fylgjast með okkar mönnum og hinum íslensku keppendunum, þeim Fróða Hymer, Ulli og Ævari Frey Valbjarnarsyni, SKA, á komandi dögum. Okkar menn hafa lagt hart að sér í undirbúningi fyrir veturinn og nú er kominn tími til að uppskera.
Við óskum strákunum góðs gengis á mótinu!
Einnig er sýnt beint frá keppni á HM unglinga á Youtube rás FIS, sjá hér.