Frábær árangur göngukrakka á UMÍ
Krakkarnir úr skíðagönguliði SFÍ stóðu sig frábærlega á Unglingameistarmóti Íslands í skíðaíþróttum, sem fram fór á Davík og Ólfsfirði um síðustu helgi. Uppskeran varð hvorki meira né minna en 12 gullverðlaun, 10 silfurverðlaun og 4 bronsverðlaun.
Systkinin Auður Líf Benediktsdóttir og Dagur Benediktsson náðu bæði fullu húsi og unnu þrefalt í sínum aldursflokkum og það sama gerði Unnur Eyrún Kristjánsdóttir. Þau Unnur og Dagur keppa í flokki 14-15 ára en Auður Líf í flokki 12-13 ára. Þá vann Pétur Ernir Svavarsson einnig gullverðlaun í göngu með frjálsri aðferð í flokki 12-13 ára. Pétur vann að auki ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Í sama aldursflokki hlaut Mikolaj Ólafur Frach eitt silfur og eitt brons. Anna María Daníelsdóttir keppti einnig í flokki 12-13 ára og hlaut tvö silfur og eitt brons. Í aldursflokki 14-15 ára hlutu þau Jóhanna María Steinþórsdóttir og Sigurður Hannesson þrenn silfurverðlaun hvort.
Í boðgöngu er ekki skipt í aldursflokka heldur er keppt í einum flokki drengja og einum flokki stúlkna. Skemmst er frá því að segja að Ísfirðingar sigruðu í báðum göngunum. Í stúlknaflokki skipuðu sigursveitina þær Anna María Daníelsdóttir, Unnur Eyrún Kristjánsdóttir og Auður Líf Benediktsdóttir. Í öðru svæti varð B sveit SFÍ með þær Kolfinnu Írsi Rúnarsdóttur, Jóhannönnu Maríu Steinþórsdóttur og Jóhönnu Jóhannsdóttur innanborðs. Í sigursveit drengjanna gengu þeir Mikolaj Ólafur Frach, Sigurður Arnar Hannesson og Dagur Benediktsson.
Að móti loknu voru krýndir bikarmeistarar Skíðasambands Íslands, en sá titill er veittur fyrir bestan heildar árangur vetrarins. Auður Líf Benediktsdóttir varð bikarmeistari í 12-13 ára flokki og þau Sigurður Hannesson og Unnur Eyrún Kristjánsdóttir hlutu titilinn í flokki 14-15 ára. Loks hlaut SFÍ verðlaun fyrir að vera stigahæsta skíðagöngulið landsins í vetur. Sannarlega frábær árangur og við getum verið stolt af öllum þeim glæsilegu krökkum sem æfa hjá félaginu.