Ísfirðingar heiðraðir á Skíðaþingi 2024

Ísfirðingar heiðraðir á Skíðaþingi 2024

23. september 2024 SFI

Vel tókst til síðastliðna helgi þegar 75. Skíðaþing Skíðasambands Íslands var haldið hjá okkur á Ísafirði.  

Sjálfboðaliðar, foreldrar og félagar okkar í Skíðafélaginu sem sæmd voru heiðursmerki Skíðasambandsins voru þau Birna Jónasdóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Þórunn Pálsdóttir, Jóhanna Oddsdóttir, Jóna Lind Kristjánsdóttir, Sigurður Erlingsson, Guðmundur Ragnarsson, Davíð Höskuldsson og Guðjón Höskuldsson er hlutu silfurmerki. Þorlákur Baxter hlaut gullmerki og Hafsteinn Sigurðsson hlaut heiðurskross Skíðasambandsins. 

Okkur langar að þakka þeim fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt starf í þágu félagsins. 

 

Greinagerð Hafsteinn Sigurðsson heiðurskross Skíðasambands Íslands:

Hafsteinn Sigurðsson var aðeins átta ára gamall þegar hann fór á skíðanámskeið uppi í Stórurð hér rétt ofan við bæinn og það má segja að hann hafi varla spennt af sér skíðin síðan. Hann varði flestum sínum frístundum í Stórurðinni, þar sem hægt var að skíða langt fram á kvöld.  Að vísu var þá engin lyfta í brekkunni, en ungum og hraustum krökkum þótti lítið mál að labba aftur upp eftir hverja ferð. Brekkan var upplýst og síðasti maður heim slökkti ljósin. Fljótlega varð Seljalandsdalur einnig að leiksvæði Hafsteins.

Níu ára gamall tók Hafsteinn þátt í sinni  fyrstu skíðakeppni og flestum var ljóst að þessi piltur ætlaði sér að ná langt. Hann varð Íslandsmeistari unglinga í fyrsta sinn fimmtán ára gamall og sautján ára var hann valinn í landslið Íslands í alpagreinum.

Hafsteinn þótti líklegur til að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Sapporo í Japan árið 1972, en því miður hætti Ísland við þátttöku á þeim leikum vegna of mikils ferðakostnaðar. Hann var hins vegar valinn til keppni á heimsmeistaramótinu í St. Moritz í Sviss tveimur árum síðar.

Ég nefndi áðan að Seljalandsdalur hefði verið leiksvæði Hafsteins. En hann gerði meira en að renna sér á skíðum þar upp frá, því samhliða keppnisferlinum var hann  í hópi harðsnúinna  sjálfboðaliða sem lögðu á sig gríðarlega vinnu við að reisa skíðalyfturnar á Dalnum - Gullhólslyftuna og þá landsfrægu „efri lyftu“ sem bar menn upp í eina bröttustu skíðabrekku landsins.

Á árunum 1968 – 1974 varð Hafsteinn tvisvar sinnum Íslandsmeistari í svigi, einu sinni í stórsvigi og tvisvar í alpatvíkeppni. Hann gat því sannarlega verið stoltur af uppskerunni þegar glæsilegum keppnisferli lauk.

Þótt Hafsteinn hætti að keppa var ástríðan fyrir skíðaíþróttinni jafn rík og fyrr. Hann tók til við að miðla af reynslu sinni og kunnáttu til yngri kynslóða og þjálfaði  skíðafólk bæði á Ísafirði og Húsavík. Ekki leið á löngu þar til hann var ráðinn landsliðsþjálfari Íslands og var m.a. þjálfari hópsins sem Ísland sendi til keppni í alpagreinum á Ólympíuleikunum í Sarajevo árið 1984. Á þeim fjórum árum sem Hafsteinn gegndi stöðu landsliðsþjálfara í alpagreinum varð mikil umbylting í starfsháttum landsliðsins og gæðastuðullinn var hækkaður verulega.

Eftir að Hafsteinn hætti sem landsliðsþjálfari varð hann íþróttafulltrúi á Ísafirði um hríð og beitti sér þá m.a. fyrir verulegum úrbótum á aðstöðunni á skíðasvæðinu á Seljalandsdal. Hann átti einnig eftir að koma meira að þjálfun skíðafólks á Ísafirði, m.a. á sérstakri skíðabraut við Menntaskólann á Ísafirði sem starfrækt var um skeið.

Hafsteinn hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir skíðahreyfinguna hér á staðnum. Hann var t.d. formaður Skíðaráðs Ísafjarðar um árabil og var einnig kosinn í nefnd um enduruppbyggingu skíðasvæðisins eftir að aðstaðan á Seljalandsdal hafði sópast burt í snjóflóði.

Hafsteinn Sigurðsson hefur alltaf verið mjög alhliða skíðamaður og þótt alpagreinar væru hans aðal keppnisgrein var hann einnig þónokkuð virkur í skíðagöngu. Á Skíðamóti Íslands árið 1965 keppti hann t.d. bæði í alpagreinum og göngu, en hætti sér þó ekki í stökkið!  Og enn þann dag í dag er Hafsteinn tíður gestur á báðum skíðasvæðum Ísfirðinga, göngusvæðinu og alpasvæðinu, og dylst engum sem sér til að þar fer maður sem kann flestum öðrum betur að standa á skíðum.

Það er mér sönn ánægja að veita Hafsteini heiðurskross Skíðasambands Íslands.

 

Greinagerð silfurmerki Skíðasambands Íslands: 

Með þessari viðurkenningu viljum við þakka ykkur öllum innilega fyrir ómetanlegt framlag ykkar til skíðahreyfingarinnar. Sjálfboðaliðastarf ykkar hefur verið lykilþáttur í að gera starfsemi skíðahreyfingarinnar hér á Ísafirði mögulegt og hefur haft haft mikil áhrif á alla sem starfa innan hreyfingarinnar, sem og þá sem njóta hennar.

Með ykkar framlagi hafið þið sýnt einstaka elju, ósérhlífni og alúð við öll ykkar störf. Hvort sem það er í skipulagi og stjórnarsetu í SFÍ, aðstoð við iðkendur, á vettvangi móta og æfinga,við rekstur foreldrafélags og skíðaskála þá hefur ykkar framlag verið ómetanlegt. Þið eigið það öll sameiginlegt að orka ykkar og jákvæðni hafa verið smitandi, og þið hafið staðið ykkur sem mikilvæg fyrirmynd fyrir aðra sjálfboðaliða og þátttakendur.

Fyrir hönd skíðahreyfingarinnar þökkum við ykkur af heilum hug fyrir ykkar tíma, vinnu og stuðning. Án fólks eins og ykkur væri starfsemin okkar ekki möguleg. Við vonum að þið haldið áfram að vera hluti af þessu ótrúlega samfélagi og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Styrktaraðilar