Skíðamót Íslands í skíðagöngu

Skíðamót Íslands í skíðagöngu

9. apríl 2025 SFI
Ísfirski hópurinn. 
Frá vinstri Ástmar Helgi, Eyþór Freyr, Dagur Ben, Heimir Logi, Grétar Smári, Snorri, Saga, Þórey, Vigdís Birna.
Fremri röð: Esja Rut, Sunna, Sölvey, Freyja Rós.
Ísfirski hópurinn. Frá vinstri Ástmar Helgi, Eyþór Freyr, Dagur Ben, Heimir Logi, Grétar Smári, Snorri, Saga, Þórey, Vigdís Birna. Fremri röð: Esja Rut, Sunna, Sölvey, Freyja Rós.
1 af 3

Skíðamót Íslands fór fram í Hlíðarfjalli á Akureyri síðastliðna helgi. Skíðafélag Ísfirðinga átti glæsilegan hóp keppenda, alls 12 talsins, sem stóðu sig frábærlega. Mótið gekk vel fyrir sig, blíðskaparveður, sól, blíða og flottar aðstæður í Hlíðarfjalli. Við þökkum Akureyringum kærlega fyrir flott mót.

Á fyrsta keppnisdegi var sprettganga.  Í karlaflokki náðu keppendur SFÍ öllum efstu þremur sætunum: Dagur Benediktsson sigraði, Snorri Einarsson hafnaði í öðru sæti og Ástmar Helgi Kristinsson í því þriðja. Keppnin var afar spennandi og aðeins hársbreidd skildu að annað til fjórða sætið.
Í yngri flokkum stóðu okkar iðkendur sig einnig mjög vel. Í flokki 15-16 ára stúlkna röðuðu þrír  Ísfirðingar sér á pallinn þær María Sif Hlynsdóttir, Sölvey Marie Tómasdóttir og Saga Björgvinsdóttir.

Á öðrum degi mótsins var keppt með hefðbundinni aðferð í vegalendum frá 3,5 upp í 10 km. Dagur sigraði karlaflokkinn eftir harða keppni við Einar Árna Gíslason frá Akureyri og Ástmar fylgdi þeim fast á eftir og hafnaði í þriðja sæti.  Keppendur í yngri flokkum skiluðu góðum árangri og gaman var að sjá bætingar hjá þessum hópi.

Á lokadeginum var keppt með frjálsri aðferð. Þar sigraði Dagur enn á ný og tryggði sér þar með þrjá Íslandsmeistaratitla á mótinu. Í karlaflokki átti SFÍ fjóra af fimm efstu keppendum, sem er frábær árangur. Keppendur félagsins voru ánægðir með mótið og árangurinn, uppskeran var sannarlega góð.

Á Skíðamóti Íslands eru krýndir bikarmeistarar vetursins. Úr okkar hópi urðu Grétar Smári, Eyþór og María Sif eru bikarmeistari veturinn 2025 í sínum flokkum.

Við óskum öllum til hamingju með sinn árangur um helgina og það sem af er vetri! Það er gaman að sjá gróskuna í skíðagöngu á landsvísu og vaxandi þáttöka á skíðagöngumótum. Hópurinn í skíðagöngunni er samheldinn og stemningin góð. Dagskráin eftir keppni var fjölbreytt og skemmtileg.  Farið var í sund, út að borða, í bíó og síðan voru haldin spilakvöld með keppendum úr öðrum liðum. Slíkar samverustundir styrkja tengslin og gera upplifunina enn betri.

Öll úrslit frá SMÍ er að finna hér

Styrktaraðilar