Takk fyrir frábæra Skíðaviku

Takk fyrir frábæra Skíðaviku

3. apríl 2024 SFI

Vel heppnuð Skíðavika er nú að baki og stóð Skíðafélag Ísfirðinga fyrir fjölda viðburða. Fyrst ber að nefna setningu Skíðaviku en þar stendur SFÍ vaktina með sölu á heitu kakói og heimabökuðum pönnsum ásamt sölu á alls kyns bakkelsi til að gæða sér á yfir páska.

Á Skírdag var haldin Skíðaskotfimi á Seljalandsdal í samvinnu við Skotveiðifélag Ísafjarðar og í ár var einnig boðið upp á hópferð í fjallaskíðun þar sem skíðað var frá Tungudal og yfir í Botnsdal og var þátttaka í báðum viðburðum mjög góð.

Á föstudaginn langa var svo furðurfatadagurinn og karamelluregn á Tungudal þar sem foreldrar skíðabarna sáu um að grilla pylsur. Stemmningin á dalnum var mjög góð og minnti um margt á gamla tíma þar sem bílastæðaröðin náði upp að göngum, svo góð var mætingin. Forsetinn sjálfur  mætti í Tungudal og fékk að upplífa aðeins stemmninguna sem fylgir Furðufatadeginum og gæddi sér á grillaðri pylsu.

Á laugardag var svo páskaeggjamót HG. Það eru æfingakrakkar okkar í eldri hópum sem sjá um að leggja ævintýra braut fyrir yngri krakka og sjá alfarið um að ræsa keppendur og taka á móti þeim í mark og gefa páskaegg að launum. Veðrið var aðeins að stríða okkur í ár en þrátt fyrir það var mjög góð þátttaka.

Vaninn er að hafa Furðufatadag og páskaeggjamót á Seljalandsdal en vegna veðurs í ár fluttum við Skíðagöngufurðufatadaginn niður í Tunguskóg þar sem æfingakrakkar lögðu þrautabraut, foreldrar æfinga krakka grilluðu pylsur og Ragnar Högni hjá Skíðasvæðinu græjaði karamelluregn. Þátttaka var góð og mikil ánægja með að hafa þennan viðburð í skóginu okkar þar sem alltaf er gott veður.

Við viljum þakka kærlega öllum þeim foreldrum og iðkendum sem hjálpuðu okkur að gera þessa viku svona skemmtilega. Síðan ber að þakka styrkaraðilum okkar HG sem gefa páskaeggin og Hótel Ísafirði sem gefa okkur pylsur og aðrar veitingar í fjáröflunarskyni. Síðast en ekki síst þökkum við snillingunum okkar hjá Skíðasvæði Ísafjarðar fyrir frábæra samvinnu. Við segjum eins og vinir okkar hjá Aldrei, maður gerir ekki rassgat einn!

Styrktaraðilar