Skíðamót Íslands 2013 hefst á morgun
Skíðamót Íslands 2013 verður haldið í Dölunum tveimur á Ísafirði um helgina, 4.-7. apríl. Mótið hefst með sprettgöngu kvenna og karla á morgun fimmtudag klukkan 17 upp á Seljalandsdal, en mótið verður svo formlega sett í Ísafjarðarkirkju klukkan 20. Keppni verður svo framhaldið föstudag, laugardag og sunnudag og verður keppt bæði í alpagreinum og skíðagöngu alla þrjá dagana.
Alls eru 61 keppendur skráðir til leiks í bæði alpagreinum og skíðagöngu frá 6 félögum víðsvegar af landinu. Þá munu einnig mæta til leiks nokkrir erlendir keppendur frá Ungverjalandi, Belgíu, Suður-Afríku og Marakkó.
Aðstæður á Ísafirði eru eins og þær gerast bestar, allar brekkur fullar af snjó og veðurspáin lofar svo sannarlega frábærum aðstæðum fyrir bæði keppendur og áhorfendur. Brekkurnar voru prufukeyrðar um páskana og segja fróðir menn að aðstæður hafi sjaldan verði jafn góðar fyrir Skíðamót Íslands í Tungudalnum og nú.
Dagskrá mótsins má nálgast hér hægra megin á síðunni eða í valmyndinni undir SMÍ 2013: Dagskrá.