Fréttir

Ísfirðingar heiðraðir á Skíðaþingi 2024

23. september 2024 SFI

Vel tókst til síðastliðna helgi þegar 75. Skíðaþing Skíðasambands Íslands var haldið hjá okkur á Ísafirði.  

Sjálfboðaliðar, foreldrar og félagar okkar í Skíðafélaginu sem sæmd voru heiðursmerki Skíðasambandsins voru þau Birna Jónasdóttir, Sigríður Sigurðardóttir, Þórunn Pálsdóttir, Jóhanna Oddsdóttir, Jóna Lind Kristjánsdóttir, Sigurður Erlingsson, Guðmundur Ragnarsson, Davíð Höskuldsson og Guðjón Höskuldsson er hlutu silfurmerki. Þorlákur Baxter hlaut gullmerki og Hafsteinn Sigurðsson hlaut heiðurskross Skíðasambandsins. 

Okkur langar að þakka þeim fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt starf í þágu félagsins. 

 

Greinagerð Hafsteinn Sigurðsson heiðurskross Skíðasambands Íslands:

Hafsteinn Sigurðsson var aðeins átta ára gamall þegar hann fór á skíðanámskeið uppi í Stórurð hér rétt ofan við bæinn og það má segja að hann hafi varla spennt af sér skíðin síðan. Hann varði flestum sínum frístundum í Stórurðinni, þar sem hægt var að skíða langt fram á kvöld.  Að vísu var þá engin lyfta í brekkunni, en ungum og hraustum krökkum þótti lítið mál að labba aftur upp eftir hverja ferð. Brekkan var upplýst og síðasti maður heim slökkti ljósin. Fljótlega varð Seljalandsdalur einnig að leiksvæði Hafsteins.

Níu ára gamall tók Hafsteinn þátt í sinni  fyrstu skíðakeppni og flestum var ljóst að þessi piltur ætlaði sér að ná langt. Hann varð Íslandsmeistari unglinga í fyrsta sinn fimmtán ára gamall og sautján ára var hann valinn í landslið Íslands í alpagreinum.

Hafsteinn þótti líklegur til að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í Sapporo í Japan árið 1972, en því miður hætti Ísland við þátttöku á þeim leikum vegna of mikils ferðakostnaðar. Hann var hins vegar valinn til keppni á heimsmeistaramótinu í St. Moritz í Sviss tveimur árum síðar.

Ég nefndi áðan að Seljalandsdalur hefði verið leiksvæði Hafsteins. En hann gerði meira en að renna sér á skíðum þar upp frá, því samhliða keppnisferlinum var hann  í hópi harðsnúinna  sjálfboðaliða sem lögðu á sig gríðarlega vinnu við að reisa skíðalyfturnar á Dalnum - Gullhólslyftuna og þá landsfrægu „efri lyftu“ sem bar menn upp í eina bröttustu skíðabrekku landsins.

Á árunum 1968 – 1974 varð Hafsteinn tvisvar sinnum Íslandsmeistari í svigi, einu sinni í stórsvigi og tvisvar í alpatvíkeppni. Hann gat því sannarlega verið stoltur af uppskerunni þegar glæsilegum keppnisferli lauk.

Þótt Hafsteinn hætti að keppa var ástríðan fyrir skíðaíþróttinni jafn rík og fyrr. Hann tók til við að miðla af reynslu sinni og kunnáttu til yngri kynslóða og þjálfaði  skíðafólk bæði á Ísafirði og Húsavík. Ekki leið á löngu þar til hann var ráðinn landsliðsþjálfari Íslands og var m.a. þjálfari hópsins sem Ísland sendi til keppni í alpagreinum á Ólympíuleikunum í Sarajevo árið 1984. Á þeim fjórum árum sem Hafsteinn gegndi stöðu landsliðsþjálfara í alpagreinum varð mikil umbylting í starfsháttum landsliðsins og gæðastuðullinn var hækkaður verulega.

Eftir að Hafsteinn hætti sem landsliðsþjálfari varð hann íþróttafulltrúi á Ísafirði um hríð og beitti sér þá m.a. fyrir verulegum úrbótum á aðstöðunni á skíðasvæðinu á Seljalandsdal. Hann átti einnig eftir að koma meira að þjálfun skíðafólks á Ísafirði, m.a. á sérstakri skíðabraut við Menntaskólann á Ísafirði sem starfrækt var um skeið.

Hafsteinn hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir skíðahreyfinguna hér á staðnum. Hann var t.d. formaður Skíðaráðs Ísafjarðar um árabil og var einnig kosinn í nefnd um enduruppbyggingu skíðasvæðisins eftir að aðstaðan á Seljalandsdal hafði sópast burt í snjóflóði.

Hafsteinn Sigurðsson hefur alltaf verið mjög alhliða skíðamaður og þótt alpagreinar væru hans aðal keppnisgrein var hann einnig þónokkuð virkur í skíðagöngu. Á Skíðamóti Íslands árið 1965 keppti hann t.d. bæði í alpagreinum og göngu, en hætti sér þó ekki í stökkið!  Og enn þann dag í dag er Hafsteinn tíður gestur á báðum skíðasvæðum Ísfirðinga, göngusvæðinu og alpasvæðinu, og dylst engum sem sér til að þar fer maður sem kann flestum öðrum betur að standa á skíðum.

Það er mér sönn ánægja að veita Hafsteini heiðurskross Skíðasambands Íslands.

 

Greinagerð silfurmerki Skíðasambands Íslands: 

Með þessari viðurkenningu viljum við þakka ykkur öllum innilega fyrir ómetanlegt framlag ykkar til skíðahreyfingarinnar. Sjálfboðaliðastarf ykkar hefur verið lykilþáttur í að gera starfsemi skíðahreyfingarinnar hér á Ísafirði mögulegt og hefur haft haft mikil áhrif á alla sem starfa innan hreyfingarinnar, sem og þá sem njóta hennar.

Með ykkar framlagi hafið þið sýnt einstaka elju, ósérhlífni og alúð við öll ykkar störf. Hvort sem það er í skipulagi og stjórnarsetu í SFÍ, aðstoð við iðkendur, á vettvangi móta og æfinga,við rekstur foreldrafélags og skíðaskála þá hefur ykkar framlag verið ómetanlegt. Þið eigið það öll sameiginlegt að orka ykkar og jákvæðni hafa verið smitandi, og þið hafið staðið ykkur sem mikilvæg fyrirmynd fyrir aðra sjálfboðaliða og þátttakendur.

Fyrir hönd skíðahreyfingarinnar þökkum við ykkur af heilum hug fyrir ykkar tíma, vinnu og stuðning. Án fólks eins og ykkur væri starfsemin okkar ekki möguleg. Við vonum að þið haldið áfram að vera hluti af þessu ótrúlega samfélagi og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Nánar

Haustæfingar hafnar í öllum flokkum

16. september 2024 SFI
Haustæfingar Skíðaganga 2024 - eldri krakkar
Haustæfingar Skíðaganga 2024 - eldri krakkar
1 af 3

Nú er starfsemi félagsins komin aftur af stað eftir sumarfrí og eru haustæfingar komnar á fullt.

Í ár verða smá breytingar á fyrirkomulagi en allir krakkar í 5.-6. bekk munu æfa saman í haust. Þar sameinast alpakrakkar, brettakrakkar og krakkar í skíðagöngu. Æfingar eru þrisvar í viku og er þjálfari þeirra Rannveig Hjaltadóttir yfirþjálfari alpagreina.

Þá er boðið upp á þá nýjung að hafa haustæfingar fyrir krakka í 2.-4. bekk. Var þetta gert að ósk foreldra að lengja æfingatímabilið hjá þessum krökkum og erum við spennt að sjá hvernig þetta mun ganga.
Skíðaæfingar fyrir þennan aldur hefur verið hluti af íþróttaskóla HSV og verður það áfram frá og með 1.janúar en þá tökum við einnig á móti nýjum iðkendum úr 1.bekk. Haustæfingarnar eru hins vegar ekki hluti af íþróttaskóla og verða því innheimt æfingagjöld fyrir þær æfingar. Þessar æfingar eru sameiginlegar fyrir alla skíðakrakka. Æfingar verða tvisvar í viku og er þjálfari Jóna Lind Kristjánsdóttir.

Þá verður fullorðins flokkur alpagreina hjá okkur í vetur en það er í fyrsta skiptið í yfir áratug. Við fögnum því en það er mikils virði fyrir yngri iðkendur að eiga eldri fyrirmyndir innan félagsins.

Allar skráningar á skíðaæfingar fara fram í Sportabler og er hlekkur hér

Æfingatöflur haustins er að finna undir hverri grein hér á síðunni og fylgja einnig sem mynd með þessari frétt.

Nánar

75. Skíðaþing haldið á Ísafirði dagana 20. og 21. september

16. september 2024 SFI

Skíðaþing Íslands verður haldið dagana 20. og 21. september á Ísafirði. Þingið verður haldið á fjórðu hæð Stjórnsýsluhússins við Hafnarstræti og verður sett kl 19 föstudaginn 20.september.

Venju samkvæmt verður dagskrá hefðbundin en sérstakur gestur á þinginu verður Vésteinn Hafsteinsson afreksstjóri ÍSÍ og mun hann m.a að ræða afreksmálin, stefnu ÍSÍ, ríkisins o.fl. í íþróttamálum fram að og yfir næstu Ólympíuleika. 

Föstudagur 20. september kl. 19:00

1. Þingsetning
2. Kosning fyrsta og annars þingforseta
3. Kosning fyrsta og annars ritara
4. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar og þriggja manna kjörnefndar
5. Viðurkenningar veittar
6. Ávörp gesta
7. Framlagning skýrslu stjórnar
8. Framlagning skoðaðra reikninga
9. Álit kjörbréfanefndar
10. Umræður um skýrslur stjórnar og reikninga
11. Afgreiðsla reikninga
12. Framlagning fjárhagsáætlunar og gjaldskrár
13. Lagðar fram tillögur að:
14. Breytingum á lögum og reglugerðum
15. Öðrum málum kynntum í fundarboði
16. Öðrum málum sem lögð hafa verið fyrir þingið með leyfi þingmeirihluta
17. Fundir nefnda
18. Alpagreinanefnd
19. Skíðagöngunefnd
20. Snjóbrettanefnd
21. Allsherjarnefnd

Laugardagur 21. september
09:00 - 10:00 Framhald nefndarstarfa
10:00 – 12:00 Afreks- og íþróttamál. Kynning á afreksstefnu og umræður Vésteinn Hafsteinsson, afreksstjóri ÍSÍ
12:00 – 13:00 Hádegisverðarhlé
13:00 - 15:30 ÞINGFUNDI framhaldið
22. Álit nefnda og afgreiðsla framkominna tillagna
23. Kosning þriggja manna kjörnefndar fyrir þing 2025 [Ekki er kosið til stjórnar og nefnda á þessu þingi]
24. Önnur mál
25. Þingslit

kl. 16:15 Óvissuferð og kvöldverður

Nánar

Lokahóf SFÍ fyrir veturinn 2023-2024

17. maí 2024 SFI
1.-4. bekkur skíðaganga
1.-4. bekkur skíðaganga
1 af 7

Lokahóf SFÍ var haldið í sal grunnskólans á Ísafirði þann 6.maí og virkilega gaman að sjá hvað var góð mæting hjá iðkendum og foreldurm. Það var sannkölluð uppskeruhátíð hjá okkar fólki enda annasamur og góður vetur að baki.

Allir iðkendur fengu viðurkenningu fyrir liðinn vetur og þjálfarar fengu tækifæri til að þakka krökkunum sérstaklega fyrir veturinn.

Krakkarnir fóru í ratleik þar sem allir aldurshópar gátu unnið saman að því að leysa ýmsar þrautir, farið í leiki, grillaðar pylsur og var stemmningin mjög góð.

Takk fyrir veturinn! Hlökkum til næsta veturs og reynum að vera dugleg að hittar, hreyfa okkur og leika þangað til.

Nánar

Þórunn Pálsdóttir og Jóhanna Oddsdóttir sæmdar gullmerki HSV

8. maí 2024 SFI

Þær Þórunn Pálsdóttir og Jóhanna Oddsdóttir voru á ársþingi HSV 2024 sæmdar gullmerki HSV.  Þær eru vel að þessu komnar og algjörir fyrirmyndarfélagar. Báðar hafa þær í áratuga rás sinnt hinum ýmsu störfum fyrir félagið, tekið þá og gert mikið gagn. það er algjörlega ómetanlegt fyrir félagið að eiga þær að.

Hér koma greinargerðarnar sem fylgdu tilnefningunum. 

Þórunn Pálsdóttir

Tilnefnd til gullmerkis HSV af Skíðafélagi Ísfirðinga

Þórunn hefur átt langa samleið með Skíðafélagi Ísfirðinga og hefur hún komið víða við í starfi félagsins. Hún byrjaði sem iðkandi í alpagreinum og keppti fyrir hönd félagsins á fjölmörgum mótum með góðum árangri. Síðar kom hún sterk inn í starf félagsins sem foreldri og fór meðal annars í æfinga- og keppnisferðir sem farastjóri. Víst er að enginn var svikinn um ást og umhyggju í þeim ferðum. Einnig var Þórunn gjaldkeri í stjórn SFÍ um nokkurra ára skeið.

Þórunn er einn af þessum sterku póstum sem Skíðafélagið byggir starf sitt á. Þó hún eigi ekki lengur iðkendur í félaginu er hún alltaf tilbúin að leggja fram vinnu hvort sem það er bakstur, aðstoð við þjálfun, vinna við mót eða hvað annað sem félagið tekur sér fyrir hendur. Nú síðasta áratuginn og ríflega það hefur Þórunn haft umsjón með Skíðaskálanum í Tungudal. Þar eru mörg handtökin sem þarf að vinna: Sjá um bókanir, skipta um á rúmum, þrífa, sinna þvotti, kaupa inn og passa upp á viðhald svo nokkuð sé nefnt. Þetta hefur Þórunn unnið í sjálfboðavinnu og þar með bæði sparað félaginu útgjöld og aflað því tekna.

Skíðafélag Ísfirðinga þakkar af heilum hug Þórunni fyrir hennar framlag, það er ómetanlegt að eiga svona liðsmann.

Jóhanna Oddsdóttir

Jóhanna Oddsdóttir hefur verið viðloðandi skíðaíþróttina allt frá blautu barnsbeini enda fædd inn í eina þekktustu skíðaætt Ísfirðinga. Grænagarðsættina. Hún hefur um áratugaskeið verið eina af driffjöðrunum í starfi Skíðafélags Ísfirðinga.

Allir sem starfa að félagsmálum vita að án öflugra sjálfboðaliða getur ekkert félag lifað til lengdar. Og það finnast varla öflugri sjálfboðaliðar en Jóhanna Oddsdóttir. Hvænar sem þörf er á dugandi fólki til vinnu á Seljalandsdalnum er Jóhanna mætt fyrst allra, gjarnan með hann Nonna sinn með sér, og vinnur eins og sleggja uns verkefið hefur verið klárað. Gildir þá einu hvort um er að ræða uppsetningu á snjógirðingum, vinnu við mótahald, tiltekt í skálanum eða eitthvað annað. Alltaf má stóla á Jóhönnu. Hún hefur líka um árabilt stýrt af röggsemi einu stærsta kaffihlaðborði á Íslandi, Fossavatnskaffinu og setið í ritnefnd Skíðablaðsins í ótal mörg. Jóhanna hefur setið í stjórn skíðafélagsins og sinnt formennsku í mörg ár og skilið eftir sig gott verk. Ef skíðafélagið þarf á fólki að halda þá mætir Jóhanna. Ekki má heldur gleyma hlutverki hennar sem skíðamamma, því hún lagði Skíðafélagi Ísfirðinga til einn besta skíðagöngumann landsins undanfarin ár, Albert Jónsson.

Það er ótrúlega dýrmætt fyrir Skíðafélagið, og fyrir íþróttahreyfinguna, að eiga bandamenn eins og Jóhönnu Oddsdóttur. Jóhanna hlaut silfurmerki HSV árið 2018 og nú er komið að því að stíga skrefið til fulls og veita henni sjálft gullmerkið.

Nánar

Styrktaraðilar